top of page
Lífið er drullumall

SILJA AÐALSTEINSDÓTTIR

18. OKTÓBER 2014

TMM

Það fer margt um huga fullorðinnar manneskju undir sýningu Tíu fingra á Lífinu sem var frumsýnd í dag í Tjarnarbíó undir stjórn Charlottu Bøving. Sköpunarsaga biblíunnar er nærri og þróunarkenning Darwins sækir svolítið á mann þegar dýrategundirnar sækja fram hver af annarri en mest hreiðraði þó um sig í huga mínum gamla snilldarþýðingin hans Magnúsar Ásgeirssonar á Síðasta blóminu eftir James Thurber.

Eins og í Síðasta blóminu eru hér í sögumiðju einn piltur (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og ein telpa (Sólveig Guðmundsdóttir) og saman fara þau í gegnum ævintýri lífsins, góð og slæm. Þau byrja á að uppgötva ljós og skugga („verði ljós!“), svo uppgötva þau moldina og hve margt og mikið má skapa úr henni. Þau nota einföldustu aðferðir til að búa til fjölbreyttar dýrategundir, þarna komu hoppandi froskar og skrækjandi apar, sprangandi hani og skríðandi slanga, jafnvel krókódíll – eða var það dreki? – börnunum í salnum til stórkostlegrar skemmtunar. Svo fóru pilturinn og telpan að leika sér að moldinni og í moldinni; aldrei hef ég séð tær leika eins vel og í dag og aldrei hefur jafnmiklu af drullu verið ausið yfir leikara á sviði að mér áhorfandi. En eins og nærri má geta endist friðurinn ekki lengi – frekar en í Síðasta blóminu. Eignagleðin og græðgin gera vart við sig, þótt þetta sé „bara“ mold, og liggur við að allt endi með ósköpum: „Lægra en dýr með loðinn bjór / lagðist mannkind smá og stór.“ Það verður þó ekki. Má þó nærri geta að Sveinn og Sólveig hafa verið fegin að komast í almennilega sturtu eftir leikinn.

Höfundar verksins eru leikarar, leikstjóri og Helga Arnalds sem einnig hannar myndræna hlið verksins sem er einföld og afar markviss. Lýsingin skiptir miklu máli í skuggaleiknum og frumlegum speglunum, hana hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson og Magga Stína býr til yndislega tónlist við verkið. Þetta er sýning sem jafnvel lítil börn munu hafa gaman af og allir sem hafa gaman af að drullumalla, hversu gamlir sem þeir eru

Rýni: Lífið

DAGNÝ KRISTJANSDÓTTIR

OKTÓBER 2014

Hugrás

Leikhúsið Tíu fingur frumsýndi nýtt leikverk fyrir börn, Lífið, í Tjarnarbíói á laugardaginn var. Það er Charlotte Böving sem leikstýrir, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson sem leika, Margrét Kristín Blöndal sér um tónlistina og Helga Arnalds um myndræna hlið verksins.

Helga Arnalds er stofnandi leikhópsins Tíu fingur sem verður 20 ára á næsta ári. Hún er myndlistarmaður og brúðuleikari og hefur kallað til liðs við sig marga afburða listamenn gegnum tíðina og leikhús hennar fengið verðlaun og viðurkenningar. Tíu fingur sérhæfir sig í sjónrænu leikhúsi og sýningin Lífið er án orða. Þar er leikið er með ljós og skugga, lágmarks sviðsbúnað en mikla hreyfingu, leikgleði og hugmyndaauðgi.

Leikritið opnar eins og Völuspá á því að í upphafi var ekkert nema formleysi. Lífið fjallar síðan um það að gefa ómótuðu efni form. Í upphafi sjá börnin skugga á tjaldi þar sem tvær mannverur greina sig smám saman útúr ó-skapnaði og þessar mannverur uppgötva hvor aðra og byrja að byggja og búa,  dýrin verða til á jörðinni, búin eru til samskipti, mannvirki, hvort tveggja brotið niður, tekist á en sæst heilum sáttum í lokin.

Börnin skemmtu sér konunglega (við líka) og sýningin vakti athygli þeirra og forvitni allan tímann. Það verður seint fullþakkað að til eru listamenn sem bjóða yngri börnum leikhússupplifun sem er valkostur við hraðann, hávaðann og íburðinn í stóru barnasýningunum.  Börnin hlóu hjartanlega að átökum stráksins og stelpunnar, vatnsaustri og leik með moldina. Lítilli hefðarmeyju sem var með mér þótti nóg um leðjuslaginn, einkum af því að slettist örlítið á peysuna hennar en öll börnin fengu lítinn blómakassa með fræi í sem kveðjugjöf sem gerði mikla lukku.

Sýningin tekur 50 mínútur, hún er fyrir börn frá 4 ára aldri  og ég mæli með henni.

Þreifað á mold, talað til vits og tilfinninga!

JAKOP S. JÓNSSON

MARS 2020

Kjarninn

Leik­húsið 10 fingur á senn 25 ára afmæli og var í upp­hafi einnar konu leik­hús Helgu Arn­alds sem ferð­að­ist milli leik­skóla og skóla í land­inu með sýn­ingar sín­ar. Smám saman bætt­ist í hóp­inn og hefur margt af okkar fremsta lista­fólki gengið í lið með Helgu; Leik­húsið 10 fingur hefur einnig í æ rík­ara mæli sér­hæft sig í list­sköpun sem stendur á mörkum leik­húss og mynd­listar og er eina leik­húsið í land­inu sem helgar sig slíkum sýn­ingum og hefur auk þess lagt áherslu á að gera sýn­ingar sem börn og full­orðnir geta notið sam­an. Það er gaman að geta þess einnig að á ferli sínum hefur Leik­húsið 10 fingur hlotið tvær Grímur fyrir bestu barna­sýn­ing­arnar auk þess að hafa hreppt íslensku bjart­sýn­is­verð­laun­in.

Þegar gluggað er í leik­skrá sýn­ing­ar­innar Lífið – stór­skemmti­legt drullum­all má lesa hvaða hug­myndir voru kveikjan að verk­inu: „Lífið er ferða­lag og skref fyrir skref fikrum við okkur inn í óviss­una. ... Við þreif­uðum á mold­inni og skoð­uðum hvaða hug­myndir voru fólgnar í henni. Svo fórum við að rann­saka poka, ljós og skugga. ... Við tókum eitt skref í einu án þess að vita hvar sýn­ingin myndi enda. ...“

Þessar sér­deilis frjóu hug­myndir urðu að ákaf­lega sér­stæðri, fal­legri og ein­lægri sögu sem þau Sól­veig Guð­munds­dóttir og Sveinn Ólafur Gunn­ars­son miðla áhorf­endum á tæpri klukku­stund, sem er hæfi­leg lengd á sýn­ingu fyrir yngstu áhorf­end­urna.

Sagan kviknar með spili skugga á stóru bak­tjaldi sem gnæfir yfir sviði Tjarn­ar­bíós. Óræð­ar, tor­kenni­legar fígúrur kvikna til lífs, hreyfa sig til og frá, ummyndast, stækka og minnka á víxl og smám saman birt­ast þær á svið­inu, tvær verur sem tjá sig með ýmiss konar frum­stæðum hljóð­um. Þetta er fal­legt sjón­ar­spil þar sem unnið er með bak­lýs­ingu aftan við bak­tjaldið – og eins og atriðið er unn­ið, fer einnig heil­mikið fyrir lýs­ingu framan við bak­tjaldið líka – og þannig geta skugg­arnir leikið sér og búið til hug­renn­inga­tengsl sem tak­markast af engu nema ímynd­un­ar­afl­inu. Og þá eru þau ekki síður til­komu­mikil hljóðin sem frá ver­unum koma og undir heyr­ist tón­list­in, sem á stóran þátt í að glæða heild­ina spenn­andi lífi.

Það var býsna magnað að upp­lifa, að nokkrir hinna ungu áhorf­enda virt­ust þegar í upp­hafi eiga erfitt með skilin milli listar og lífs og gripust skelf­ingu þegar skugg­arnir brugðu á leik. Það er vissu­lega gaman þegar listin hel­tekur svo áhorf­endur sína og þeir lifa sig svo ger­sam­lega inn í það sem fyrir augu þeirra og eyru ber – þannig vill jú leik­húsið virka, ekki satt? – en það er engu að síður umhugs­un­ar­efni þegar ungir áhorf­endur ráða ekki við að greina á milli þess sem er áhuga­vert, hluti af þró­un, líkt og upp­haf sögu er, og svo þess sem er ógn­vekj­andi af því þau virð­ast ekki þekkja sjálfan mið­il­inn – leik­hús­ið.

Getur verið að for­eldrar anni ekki skyldum sín­um, að leiða börn sín inn í heim sög­unn­ar, kenni þeim í verki að greina á milli þess sem er veru­leiki ann­ars vegar og hins vegar frá­sögnin af þessum veru­leika? Eða reyn­ist sú fantasía, sem birt­ist okkur í upp­hafi Lífs­ins – stór­skemmti­legt drullum­all ein­fald­lega hinum ungu áhorf­endum ofviða? Eru þau alin upp í ein­hvers konar „af­þrey­ing­arna­t­úr­al­isma“ sem gerir alla sym­bó­lík fram­andi og hættu­lega?

Þetta voru nokkrar hug­leið­ingar sem flugu um huga þess sem hér skrifar og ekki skal full­yrt neitt um svör eða nið­ur­stöð­ur, en óneit­an­lega eru þetta pæl­ingar sem vert er að gefa gaum.

Lífið – stór­skemmti­legt drullum­all vex hægt og örugg­lega og verður að sögu tveggja ein­stak­linga sem mæt­ast óvænt, kynn­ast og bregða á leik sem þró­ast frá því að ein­kenn­ast af hrifn­ingu fyrir öllu því nýja og spenn­andi sem fyrir skiln­ing­ar­vitin ber, bragð, sjón, heyrn, ilman og skynjan yfir í and­stæðu sína og hörku­lega bar­áttu um yfir­ráða­svæð­i;  með því er sam­tímis brugðið upp ljós­lif­andi mynd af sögu mann­kyns frá upp­hafi til nútíma og um leið ger­ist fyrir augum okkar leik­húsæv­in­týri þar sem mold­ar­pokar öðl­ast líf og tær og fingur verða að sér­stæðum karakt­er­um.

Allt er gert af næmni fyrir og þekk­ingu á ótak­mörk­uðum tján­ing­ar­tækjum leik­list­ar­innar og ber vott um þróað list­rænt inn­sæi, rót­gróna þekk­ingu á bæði leik­list­inni og sögu­efn­inu og yfir öllu skín virð­ing fyrir hinum ungu áhorf­endum (og reyndar hinum eldri lík­a!) sem er og á að vera aðal og ein­kenn­is­merki allrar góðrar leik­list­ar. Hér er sagan sögð blátt áfram og af ein­lægni, hvergi ber á til­gerð eða auð­veldum gervi­lausnum heldur allt sett fram í krafti þess sem rök­rétt er og talar til vits­muna áhorf­enda í sama mæli og til­finn­ingum þeirra er ögrað.

 

Þeir ungu áhorf­endur sem gripnir voru ótta í upp­hafi róuð­ust, enda þeirra full­orðna fylgd­ar­fólk natið við að hugga og knúsa; hvað sem líður vanga­veltum hér ofar, er það hverju orði sann­ara að leik­húsi þarf að venj­ast og læra á tákn­rænan frá­sagnir þess og hvernig þær orka á til­finn­ingar og sál­ar­líf. Þá getur verið einkar gott að hafa ein­hverja hlýja og góða eldri fylgd­ar­mann­eskju sem opnar faðminn, sefar og telur kjark í unga sál. Og kannski rétt að geta þess að loka­mynd sýn­ing­ar­innar andar frá sér friði og værð; þar er slegið á hár­réttan tón til að for­eldrar og fylgd­ar­fólk geti tekið við og hjálpað til við að láta sýn­ing­una og þau hug­hrif sem hún hefur vakið að gerj­ast og jafn­vel öðl­ast sjálf­stætt líf í barns­hug­an­um. Til þess er jú leik­hús­ið, ekki satt?

Lífið – stór­skemmti­legt drullum­all er hríf­andi sýn­ing, fal­leg og talar til allra skiln­ing­ar­vita. Leik­ur­inn er hug­mynda­ríkur og fjör­leg­ur, þau Sól­veig og Sveinn Ólafur hlífa sér hvergi og lík­ams­tján­ing þeirra náði svo sann­ar­lega áhorf­end­um. Það er hrein unun að sjá hví­líkt vald þau hafa á með­ulum leik­ar­ans, hve sam­leikur þeirra er öruggur og traustur og hvernig þau leiða sög­una til lykta án þess að styðj­ast við hefð­bundið tungu­mál heldur aðeins hreyf­ing­ar, svip­brigði, og óhefð­bundin hljóð – og óhljóð.

 

Leik­stjórn Charlotte Bøv­ing er eins og búast má við, traust og mark­viss og sér til þess að hinn mann­legi, hlý­legi svipur haldi sér í hví­vetna – en ekki verður svo skilið við Lífið – stór­skemmti­legt drullum­all án þess að minnst sé á tón­list Mar­grétar Krist­ínar Blön­dal, sem gerði allt í senn, að draga, fylgja með og elta rás atburða, inni­lega sam­fléttuð í allan þann list­ræna gjörn­ing sem fram fór á svið­inu.

Lýs­ing Björns Berg­steins Guð­munds­sonar var sömu­leiðis sköpuð í anda frá­sagn­ar­innar og þjón­aði henni út í ystu æsar. Allt þetta gerir Lífið – stór­skemmti­legt drullum­all ekki bara að stór­skemmti­legu drullum­alli, heldur fal­legri, vand­aðri og heil­steyptri leik­sýn­ingu fyrir börn á öllum aldri – þar sem borin er ósvikin virð­ing fyrir greind þeirra og til­finn­ingum og þau hvött til nokk­urs þroska. Betri ger­ast leik­sýn­ingar ekki!

bottom of page