top of page

Leikhúsið 10 fingur hefur verið starfandi síðan 1993 og sett upp fjölmargar sýningar. Sýningarnar hafa allar verið langlífar þar sem þær eru hannaðar sérstaklega með það í huga að það sé auðvelt að ferðast með þær. Enda hafa nánast allar sýningar leikhússins ferðast mjög víða og gengið í mörg ár.

SKRÍMSLIÐ LITLA SYSTIR MÍN sem var frumsýnd 2012 og hlaut Grímuverðlaun sem besta barnasýningin það árið hefur ferðast á fjölmörg festivöl erlendis. Tónlistin í sýningunni er eftir Eivöru Pálsdóttur og var tónlistin gefin út á geisladiski ásamt myndskreyttri barnabók með sögunni ári síðar. Sú bók er til á mörgum heimilum í dag og nánast allir krakkar á leikskólaaldri kunna lögin úr sýningunni utanbókar. Verkið var svo aðlagað og útsett fyrir sínfóníuhljómsveit 2017 og flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt Eivöru og barnakór Langholtskirkju í Hörpu og af Sinfóníuhljómsveit Færeyja í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn sama ár.

Undanfarið hefur leikhópurinn verið á ferðinni út um allan heim með sýninguna LÍFIÐ - drullumall. Verkið var sýnt leikárið 2014-2015 og hlaut tvenn Grímuverðlaun og nú á dögunum Youth Critics Awards á alþjóðlegu Assitej hátíðinni í Kristiansand í Noregi. Hópnum hefur tvisvar verið boðið með sýninguna til Kína, fyrst í 3 vikur til Shanghai og svo í tvær vikur að ferðast um Kína en sýndar voru samtals 40 sýningar fyrir um 5000 manns. Þá hefur LÍFIÐ verið sýnt í Hollandi, Noregi, Þýskalandi og á Möltu og fengið boð til Egyptalands, Litháen, Póllands og Japans á næsta ári.

Leikhúsið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar bæði hérlendis og erlendis. Þar á meðal fjórar Grímur fyrir bestu barnasýningarnar og Íslensku Bjartsýnisverðlaunin.

 

Leikhúsið var stofnað af Helgu Arnalds sem en er listrænn stjórnandi þess. Helga er myndlistamaður, hönnuður og brúðuleikari. Hún lærði brúðuleikhús í Istituto del Teatro í Barcelona og myndlist í Listaháskóla Íslands og hönnun við Århus Designskole. Margir af okkar fremstu listamönnum hafa tekið þátt í starfinu og 10 fingur hafa í æ ríkara mæli sérhæft sig í listsköpun sem stendur á mörkum leikhúss og myndlistar.

 

Leikhúsið 10 fingur hefur aðallega beint sjónum sínum að ungum áhorfendum en um leið lagt áherslu á að gera sýningar sem börn og fullorðnir geta notið saman.

10 fingur taka oft fyrir krefjandi málefni sem brenna á börnum en þó er líka alltaf stutt í húmorinn. 
Að gera leikhús sem höfðar bæði til fullorðinna og barna er að velja að vera með skýran fókus og sterka nærveru. Vera einfaldur en á sama tíma margslunginn og fjölbreyttur. Að taka áhættuna og mæta hinu óþekkta. 

 

bottom of page