Góð sýning fyrir góð börn
* * * * *
ELÍSABET BREKKAN
13. febrúar 2012
FRÉTTABLAÐIÐ
Það sem segja má að hafi verið mest heillandi er að sköpunarferlið verður allt til beint fyrir framan augun á börnunum,” segir gagnrýnandi Fréttablaðsins.
Leiklist. Skrímslið litla systir mín. Sýnt í Norræna húsinu. Höfundur, flytjandi og myndlistarmaður: Helga Arnalds, tónlist: Eivör Pálsdóttir, leikstjóri og meðhöfundur: Charlotte Bøving.
Í kjallara Norræna hússins er búið að koma fyrir litlu leikhúsi og þar á púðum og kollum koma áhorfendur sér vel fyrir til þess að kynnast dreng sem verður fyrir þeirri ógurlegu lífsreynslu að eignast systur sem í raun og veru er skrímsli. Margir þekkja þá erfiðu reynslu og hryllilegu daga þegar yngra systkin tekur yfir alla athygli foreldranna og stóra barnið sem búið er að lifa eins og eina sólin í tilveru foreldranna gleymist.
Hér gefur að líta ævintýri sem gerist í leikmynd sem öll er úr hvítum þunnum pappír. Pappírinn lifnar við og verður að bráðskemmtilegum verum og hryllilegu skrímsli auk þess að úr honum er galdraður fram feiknarflottur kastali. Sýningin er ætluð þriggja til níu ára börnum og það er alveg öruggt að engum leiðist. Fimm ára samferðamaður minn linnti ekki látum þegar heim kom heldur vildi strax fara að teikna og með svörtum tússlit má segja að hann hafi endursagt alla söguna, tengdi saman örmjóu strikin sem urðu að pabbanum og mömmunni og hafði sérstaklega gaman af því að teikna skrímslið fast og svart eins og konan gerði í leikhúsinu.
Það sem segja má að hafi verið mest heillandi er að sköpunarferlið verður allt til beint fyrir framan augun á börnunum, það er ekkert sem er óskiljanlegt né heldur flókið. Allt sem gerist geta þau í raun gert sjálf þegar heim kemur, það er að segja ef til eru nokkrir metrar af maskínupappír. Það verður fróðlegt að vita hvernig þessi sýning skilar sér inn í verkefnin á leikskólunum.
Að sýningu lokinni í Norræna húsinu fá þau börn sem þess óska að taka þátt í smiðju þar sem þau geta fengið að búa til skrímsli eða dreka eða eitthvað annað sem fyrir kom í sýningunni. Tónar og tónlist sem hljóma eru úr tónsmiðju Eivarar Pálsdóttur.
Helga Arnalds leikur konu sem er algerlega hvítklædd og með slaufur úr sams konar pappír og sá sem hún skapar úr. Hún er skiljanlega sögumaður um leið og hún fer með þann texta sem persónunum er ætlaður. Ljós og skuggar eru í jafn mikilvægu hlutverki og aðrir þættir verksins. Þegar slett er vatni á pappírinn sem hangir niður á sviðið og síðan beitt rauðleitri lýsingu í átt að áhorfendum og sögumaður tekur að skera niður glugga og dyr þannig að úr verður kastali, opnuðust allir litlu munnarnir og augun stóðu á stilkum.
Þessi sýning var áhorfendum samboðin. Þær Charlotte Bøving og Helga Arnalds hafa hér náð, með hjálp Hallveigar og Eivarar, í hinn rétta tón. Það er varla hægt að tala um að takast betur en þegar börnin lifa áfram í ævintýrinu að sýningu lokinni. Hvort sem þau vinna úr afbrýðisemi sinni eður ei!
Niðurstaða: Höfundar hafa náð í hinn rétta tón í afar góðri sýningu um ógurlega lífsreynslu drengs.
Þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum
SALKA GUÐMUNDSDÓTTIR
7. febrúar 2012
VÍÐSJÁ
Þau eru mörg skrímslin í íslensku barnaleikhúsi um þessar mundir. Fyrir skömmu fjallaði ég um hina ljómandi góðu barnasýningu Þjóðleikhússins um góðkunningja íslenskra barna, litla skrímslið og stóra skrímslið, og nú um helgina var frumsýnt glænýtt barnaleikrit sem kallast Skrímslið litla systir mín. Þetta nýjasta sköpunarverk leikhússins Tíu fingra er sett upp í sal í kjallara Norræna hússins, sem er afskaplega skemmtilegt umhverfi fyrir barnaleikhús en fyrir sýningu er upplagt að skoða bækur og eiga notalega stund á bókasafninu. Helga Arnalds er einn höfunda sýningarinnar og jafnframt flytjandi hennar, og segir áhorfendum sögu af litlum dreng sem eignast systur; í fyrstu er systirin enginn aufúsugestur í lífi drengsins og við fáum að fylgjast með þroskasögu hans, hvernig hann smám saman lærir að meta þetta litla skrímsli sem hefur lagt undir sig heimilið. Frásagnarmátinn er myndrænn og fallegur; mikil nákvæmnisvinna sem falin er undir að því er virðist einföldu yfirborði. Helga og leikstjóri sýningarinnar, Charlotte Böving, notast við pappír, málningu og ljós til að segja söguna, en lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar er einmitt einstaklega vel heppnuð. Pappírinn er skemmtilegur efniviður og býður upp á fjölbreytt blæbrigði, áferð og hljóð. Eivör Pálsdóttir semur og flytur fallega tónlist sem á vel við þetta ævintýralega en þó æsingslausa andrúmsloft. Það er alltaf gaman þegar börnum er treyst til að upplifa stílfærða sögu og beita skilningarvitunum á skapandi hátt. Skorið er á bönd raunsæisins og hið bókstaflega lagt til hliðar; persónur verða til úrsamanvöðluðum pappír eða fingrum leikkonunnar, á sviðinu verða til dularfullir hellisskútar og fljúgandi drekar. Sami hluturinn getur gegnt hinum ýmsu hlutverkum; stórt verður lítið, lítið stórt. Sagan hefði á köflum mátt vera þéttari og þræðirnir í textanum skýrari; eins má Helga gæta sín á því að slíta ekki setningar of mikið í sundur, heldur fylgja hverri hugsun alla leið og vinna þannig gegn taktinum sem er svo auðvelt að festast í þegar rím og knappur texti er annars vegar. Hins vegar var ljómandi skemmtilegt að fylgjast með þessari glettnislegu en fallegu frásögn; mér til trausts og halds hafði ég fjögurra ára áhorfanda sem eignaðist einmitt nýlega litla systur, en verkið er upplagt fyrir ung börn sem eru að glíma við systkinahlutverkið eða eiga það í vændum. Þegar sýningu lýkur er boðið upp á vinnusmiðju í rými bókasafnsins, en þar fengu frumsýningargestir að búa til pappírsdreka eins og sést í sýningunni. Þetta er vel til fundin viðbót við upplifunina og tryggir henni lengri líftíma í huga barnanna, auk þess sem barnaleikhús sem hvetur áhorfendurna til sköpunar fær alltaf stóran plús í mínum kladda.